Fréttir

Pikkles í veðurstöð
Jul 19 '15

Eins og glöggir lesendur hafa ef til vill tekið eftir er hitastigið og rakinn í veðursíðunni búið að vera fast öðru hvoru undanfarna viku. Akkúrat núna þá eru þessi gildi búin að vera föst frá því í gærkveldi.

Ég veit ekki alveg hvenær þetta kemst í lag en veðurspáin (brotalínan) ætti amk að vera rétt.

 

Kátt í Kjós á laugardag
Jul 12 '15

Hátíðin Kátt í Kjós verður haldin í níunda sinn á laugardaginn 18. júlí næstkomandi.

Hérna er bæklingurinn.

Fréttir af vegavinnu
Jul 05 '15

Sælt veri fólkið,

Einar og ég höfum verið að garfast í þessu með veginn okkar undanfarnar vikur. Við höfum fengið Sigurð á Hrosshóli með okkur í að skoða málin til að sjá hvað við getum gert til að bæta veginn til frambúðar og svo síðustu helgi fengum við Jón Tap (Tönnin ehf) til að skoða aðstæður og gefa okkur grófa kostnaðaráætlun. Jón hefur unnið mikið fyrir félagsmenn og aðra í sveitinni og hann þekkir aðstæður á svæðinu vel.

Vinnan sem um ræðir er fyrir utan hlið. Við þurfum að hækka veginn á mörgum stöðum , bæta við vetrarbílastæðum, laga ræsi og bæta við skurðum og rörum þar sem við á. Auk þess er planið að færa veginn á tveim stöðum. 

Það sem við viljum gera er að setja pening í að gera veginn betri undir veturnar þannig að reglulegt viðhald verði viðráðanlegra í stað þess að þurfa að setja 400þ kr á hverju sumri í viðhald sem hverfur svo næsta vetur. Einnig ætti framkvæmdin að leiða til þæginlegri aðkomu að vetri og sparnaðar í snjómokstri.

Stjórnin settist svo niður með veganefndinni (Sigurjón á nr. 15 er kominn inn í stað Sigurðar Finnssonar) og við ræddum hvernig væri best að standa að þessu. Kostnaður við verkið verður meiri en félagsgjöld ná að dekka og því þurfum við að sækja aukalega greiðslu fyrir þessu.

Hugmyndin sem við ætlum að færa ykkur er að framkvæmdir verði gerðar seinni part ágúst og að allir félagsmenn auk fólksins hinum megin við lækinn taki jafnan þátt í kostnaði. Ef allir leggjast á eitt þá erum ekki að tala um gríðarlegar fjárhæðir og ætti þetta að vera á milli 20-30 þúsund krónur á hvern eiganda.

Við ætlum að halda fund um þetta mál í sumar, líklega í Gerðubergi og það verður boðað til hans sérstaklega, en mig langaði aðeins að segja ykkur frá stöðunni núna.

Kv,

- Nonni

Nýr göngustígur
Jun 30 '15

Þökk sé frábærtu átaki frá fjórtan galvöskum Norðurnesingum þá erum við komin með nýjan göngustíg á milli efra og nýja svæðis.

Það var mjög gaman hjá okkur og kláraðist verkið á minna en klukkutíma, enda voru handtök hröð og örugg hjá öllum þáttakendum. :-)

Eftir að mölin var komin niður skruppum við svo niður til Geirs og Jórunnar á nr. 44 og fengum okkur bjór og vöfflur.

Sjáið myndir af þessu hérna

Þúsund þakkir til þeirra sem tóku þátt og við vonum að fólk eigi eftir að nýta sér þennan flotta nýja stíg.

Sjálfboðaliðar í göngustígagerð á laugardag
Jun 26 '15

Kæru félagar,

Eina og kom fram á síðasta stjórnarfundi þá ætlum við að leggja möl í stíginn við hliðina á lóð 47 til að tengja efra svæðið og nýja svæðið betur saman (hérna er þetta á google maps).

Við erum komin með malarhlass á staðinn og vantar nú bara nokkra vaska menn og konur til að setja mölina á sinn stað.

Við ætlum að hittast klukkan 15.00 á morgun, laugardaginn 27. júní og drífa þetta af. Margar hendur vinna létt verk og það væri rosalega gaman að sjá sem flesta mæta með hjólbörur og skóflur og við drífum þetta af á stuttum tíma.

Það er aldrei að vita nema stjórnin mæti með einhverjar hressingar fyrir hörkutólin! :-)

Búið að gera við girðingu
Jun 24 '15

Védís og Valur í nr. 14 eru búin að gera við girðinguna eftir veturinn.

Það var lélegt með veginum í gilinu kringum bústað 59 og gili á móti 21. Hliðin inná nýja svæðið voru löguð og hliðið niður að ánni. Stigann sem var í norðaustur horni (móti 20) var færður upp á hæðina hjá 23, svo nú er hægt að ganga fyrir utan girðingu upp á miðsvæði og yfir járntröppuna.

Þúsund þakkir til Védísar og Vals fyrir að ganga svona rösklega í þetta! :-)

Glósur frá kynningarfundinum
Jun 19 '15

Sælt veri fólkið,

Það var mjög spennandi kynningarfundur um hitaveituna í gærkvöldi. Það var alveg gríðarlega mikil mæting og greinilegt að það er mikill áhugi fyrir framtakinu.

Það eru komnar lokakostnaðartölur á þetta og við erum að horfa á 900þ kr í þátttökugjald og svo fast 11þ kr á mánuði óháð notkun en mest þó 3 l/mín. Þeir sem eru með lægra hitastig munu fá aðeins hærra vatnamagn þannig að allir verða með svipað mikið afl.

Það verður byrjað að leggja þetta á næsta ári en það eru lágmark 2-2.5 ár þangað til að við í Norðurnesinu getum tengst. Það þarf ekki að greiða þáttökugjaldið fyrr en húsið á að tengjast heitaveitunni og því höfum við svolítinn tíma til að spara fyrir þessu. :-)

Í haust þarf að tilkynna um þátttöku og skrifa undir skuldbindingu (án greiðslu þó).

Við gætum verið að horfa á árlegan sparnað upp á 90þ krónur í hitunarkostnað m.v. 24 kwh notkun á dag en það er svolítið erfitt að bera það saman því með hitaveitu munum við hita húsin okkar allt árið um kring en ekki byrja helgina á því að vefja okkur inní teppi á meðan við bíðum eftir að húsið hitni. ;-) Ég er sjálfur með svona 30-75 kwh á dag í 85fm húsnæði en það sveiflast mikið eftir útihitastigi.

Ég er ekki alveg með á hreinu hversu mikill kostnaður verður við tengingu auk þáttökugjaldsins en það þarf að setja upp tengigrind, affall, breyta kyndingu og fleira. Það má ekki setja vatnið beint inní hitakerfi heldur þarf að hafa varmaskipti og lokað kerfi með frostlegi.

Allt að gerast í þessu! Endilega ræðið málið með því að nota athugasemdirnar fyrir neðan fréttina.

17. júní hátíð á Kaffi Kjós
Jun 16 '15

17. júní verður haldinn hátíðlegur á Kaffi Kjós  að vanda.

Opið frá kl. 11 til  22

Hopp og skopp ef veður leyfir.

Hoppukastali, andlitsmálun, heimalingar!

Opinn fundur um hitaveitumál
Jun 15 '15

Frá Kjos.is:

Opinn kynningarfundur um hitaveitu- og ljósleiðaramál verður haldinn í Félagsgarði fimmtudagskvöldið 18. júní, kl 20:00.

Nú er forhönnun lokið og komnar tillögur að lagnaleiðum um væntanlegt dreifingarsvæði hitaveitu í Kjósarhreppi, sem Stoð ehf-Verkfræðistofa hefur hannað fyrir Kjósarveitur, gert er ráð fyrir lagningu ljósleiðara samhliða.

 

Þessar tillögur verða kynntar til umræðu og umsagnar íbúa á fundinum.
Hægt er að nálgast tilllögurnar fyrir fundinn með því að smella hér  

(ath. stórt skjal, gæti tekið tíma að hlaða niður).


Stjórn Kjósarveitna mun fara yfir stöðuna á fundinum, væntanlega verðskrá og næstu skref. Auk þess mun Bragi Þór Haraldsson tæknifræðingur hjá Stoð, mæta á fundinn og sitja fyrir svörum.


Hlökkum til að sjá sem flesta

– það verður heitt vatn á könnunni og kaffi líka

ALLIR VELKOMNIR


Með hlýjum kveðjum, Kjósarveitur ehf
Pétur Guðjónsson, Karl Magnús Kristjánsson, Sigurður Ásgeirsson, Guðmundur Davíðsson og Sigríður Klara Árnadóttir 

Engin hjálp með veginn
Jun 12 '15

Stjórnin hafði sent inn umsókn til vegagerðarinnar um að vegurinn okkar yrði gerður að héraðsvegi. Rökin sem við höfðum voru annars vegar að vegurinn sinnir sumarbústaðabyggð og hins vegar að hann er notaður af fólki sem á leið inn dalinn.

Ég hringdi í þá í morgun til að athuga stöðuna á umsókninni og við munum fá neitun við því. Svarið kemur ekki mikið á óvart.

Ég heyrði einnig í hreppsnefndinni og það var borið upp á fundi þeirra sl miðvikudag hvort það væri ekki réttast að veita okkur einhverja aðstoð við veginn þar sem a) hreppurinn á mikið af lóðum á svæðinu og b) þar sem vegurinn sinnir fleirum en bara sumarbústaðabyggðinni (tenging við vegslóða inn dalinn). Því miður fengum við neitun þar líka.

Hreppurinn útilokaði samt ekki að hann myndi koma eitthvað að veginum í framtíðinni þegar/ef þau fara að selja lóðir á svæðinu.

Næstu skref eru að athuga hvort við gætum sent inn erindi til vegagerðarinnar um styrkveg en það væri ekki á þessu ári þar sem umsóknarfresturinn er runninn út. Þessi umsókn yrði eiginlega að koma frá hreppnum til að hún væri tekin alvarlega og ég mun sækja það til hreppsnefndar hvort það væri möguleiki að hreppurinn myndi senda inn umsókn næsta vor. Rökin fyrir þessu væru þá ekki sumarbústaðabyggðin heldur tengingin við svínadalsleið.

Sumsagt, engar góðar fréttir að svo stöddu og við sitjum ein uppi með þennan blessaða veg. Okkur finnst öllum alveg óhemju ósanngjarnt að þurfa að halda uppi þessum veg fyrir almenna umferð og höldum áfram að reyna að sækja einhverja aðstoð næstu ár.

Vegna þessa er líklegt að félagsmenn muni þurfa að greiða aukagjald til vegavinnu eins og var komið inná á síðasta aðalfundi. Hversu mikið það verður á eftir að áætla en vonandi getum við sett fram einhverskonar kostnaðaráætlun fljótlega.

- Stjórnin