Fréttir
Engin hjálp með veginnJun 12 '15
Stjórnin hafði sent inn umsókn til vegagerðarinnar um að vegurinn okkar yrði gerður að héraðsvegi. Rökin sem við höfðum voru annars vegar að vegurinn sinnir sumarbústaðabyggð og hins vegar að hann er notaður af fólki sem á leið inn dalinn.
Ég hringdi í þá í morgun til að athuga stöðuna á umsókninni og við munum fá neitun við því. Svarið kemur ekki mikið á óvart.
Ég heyrði einnig í hreppsnefndinni og það var borið upp á fundi þeirra sl miðvikudag hvort það væri ekki réttast að veita okkur einhverja aðstoð við veginn þar sem a) hreppurinn á mikið af lóðum á svæðinu og b) þar sem vegurinn sinnir fleirum en bara sumarbústaðabyggðinni (tenging við vegslóða inn dalinn). Því miður fengum við neitun þar líka.
Hreppurinn útilokaði samt ekki að hann myndi koma eitthvað að veginum í framtíðinni þegar/ef þau fara að selja lóðir á svæðinu.
Næstu skref eru að athuga hvort við gætum sent inn erindi til vegagerðarinnar um styrkveg en það væri ekki á þessu ári þar sem umsóknarfresturinn er runninn út. Þessi umsókn yrði eiginlega að koma frá hreppnum til að hún væri tekin alvarlega og ég mun sækja það til hreppsnefndar hvort það væri möguleiki að hreppurinn myndi senda inn umsókn næsta vor. Rökin fyrir þessu væru þá ekki sumarbústaðabyggðin heldur tengingin við svínadalsleið.
Sumsagt, engar góðar fréttir að svo stöddu og við sitjum ein uppi með þennan blessaða veg. Okkur finnst öllum alveg óhemju ósanngjarnt að þurfa að halda uppi þessum veg fyrir almenna umferð og höldum áfram að reyna að sækja einhverja aðstoð næstu ár.
Vegna þessa er líklegt að félagsmenn muni þurfa að greiða aukagjald til vegavinnu eins og var komið inná á síðasta aðalfundi. Hversu mikið það verður á eftir að áætla en vonandi getum við sett fram einhverskonar kostnaðaráætlun fljótlega.
- Stjórnin
StjórnarfundurJun 10 '15
Stjórnarfundur var haldinn á mánudaginn 8. júní síðastliðinn. Auk stjórnar voru meðstjórnendur, skoðunarmenn og veganefndin. Á fundinum var mikið rætt og margt ákveðið.
Hérna er skýrsla frá fundinum. Við viljum hvetja alla meðlimi að lesa þetta vandlega því stjórnin ætlar sér margt á þessu ári og við viljum ekki að það komi neinum á óvart í hvaða verk verður ráðist.
Endilega svo að senda póst á stjorn@nordurnes.is (eða bara að svara fréttatilkynningarpóstinum) og láta okkur vita hvað ykkur finnst.
- Stjórnin
Hemjum lúpínunaJun 04 '15
Stjórnin hefur fundað um illgresi í Norðurnesinu og þá sérstaklega lúpínu. Þessar plöntur eru ágengar og passa ekki inní gróðurinn sem æskilegt er að hafa í Norðurnesinu.
Það má alveg færa rök fyrir því að lúpína henti vel til uppgræðslu þar sem enginn annar gróður er fyrir en það á ekki við í Norðurnesinu og lúpínan er óvelkominn gestur í sumarbústaðasvæðinu.
Stjórnin vill beina þeim (vinsamlegu) tilmælum til meðlima að rífa upp lúpínu hvar sem hún finnst (það sama á við um risahvönn og kerfil).
Það er best að rífa lúpínuna upp með rótum núna snemma sumars, næstbest er að höggva hana niður ef hún er of rótföst.
Nokkuð góðar upplýsingar um lúpínu er að finna hérna.
- Stjórnin
Búið að skipa í nefndirJun 04 '15
Það hefur nú verið skipað í allar stöður og nefndir fyrir starfsárið sem er að byrja.
Hérna eru breytingarnar:
Stjórn
Karl Arthursson (nr 10) hættir sem formaður. Jón Bjarnason (nr 74) er tekinn við.
Sigurður Finnsson (nr 20) hættir sem meðstjórnandi. Sigurjón Friðjónsson (nr 15) tekur við.
Skoðunarmenn
Stefán Friðbjarnarson (nr 52) hættir og Karl Arthursson (nr 10) er tekinn við.
Brennunefnd
Sigrún Geirsdóttir (nr 74) og Alma Pálsdóttir (nr 91) hættar. Guðjón Hauksson og Soffía Matthíasdóttir (bæði nr 61) tekin við.
Snjómokstursnefnd
Snjómokstursnefndin hefur verið lögð niður og sameinast veganefnd. Veganefndin mun sjá um snjómokstur á næsta vetri.
Veganefnd
Árni Einarsson (nr 30) farinn út og Einar Arason (nr 62, frá moksturnefnd) tekinn við.
Vatns- og girðinganefndir
Óbreyttar
Stjórnin vill þakka þeim sem eru að láta af störfum fyrir vinnuframlagið í þágu félagsins okkar og bjóða nýtt fólk velkomið til starfa.
Ef einhverjir fleiri vilja láta gott af sér leiða og taka þátt í einhverri af nefndunum endilega þá að hafa samband við stjórnina með því að nota "hafa samband" hlekkinn neðst á síðunni eða senda póst á stjorn@nordurnes.is
Það er hægt að sjá núverandi nefndir með því að ýta hér: Stjórn og nefndir.
HitaveitukynningJun 03 '15
Hérna er kynningin sem Sigurður og Sigríður voru með fyrir okkur á aðalfundinum.
Fundargerð aðalfundarJun 02 '15
Fundargerð aðalfundarins 2015 er komin á vefinn.
Helstu atriði:
- Nýr formaður, Jón Bjarnason (nr 74).
- Framkvæmdargjald er nú 15.000,- kr.
- Sameiginlegt hlið verður ekki gert.
- Þörf á miklum vegaframkvæmdum.
- Hitaveitan er á góðri siglingu.
Fundargerð ritara er aðgengileg hérna.
Það verða svo settar inn frekari tilkynningar um nefndir, framkvæmdir og fleira frá nýrri stjórn á næstu vikum.
Aðalfundurinn er í kvöldMay 27 '15
Minnum á aðalfundinn í Gerðubergi kl 20.00. Við vonum að fulltrúar sem flestra bústaða og lóða sjái sér fært að mæta.
Aðalfundur 2015May 19 '15
Kæri félagi,
Aðalfundur félags sumarbústaðaeiganda Möðruvöllum í Kjós verður haldinn: miðvikudag 27. Maí 2015 í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi, kl. 20:00
Helstu atriði verða þessi:
Stjórnarskipti
Karl formaður mun ekki bjóða sig fram áfram, né heldur Sigurður gjaldkeri. Sumarhúsafélagið þarf nauðsynlega að fá nýja aðila í stjórnina til að taka við taumnum og við viljum biðja þá sem gætu haft áhuga á þessum störfum, og þá sérstaklega formannsembættinu að senda línu á Karl (karlar@bernhard.is) fyrir fundinn.
Hitaveita
Á fundinum verður rætt um hitaveitumál og munu Sigurður og Sigríður úr hreppsnefninni kíkja í heimsókn og segja okkur frá núverandi stöðu hitaveitunnar og svara spurningum.
Vega-, snjó- og hliðarmál
Gerð var tilraun með reglulegan snjómokstur síðastliðinn vetur. Það verður rætt um kostnað af þessu framtaki og mögulegt áframhald. Það verður einnig rætt um ástand vegaslóðans inn á Norðurnesið og hugmyndir um sameiginlegt hlið.
Kveðja,
Stjórnin
Alls staðar fært!Apr 21 '15
Sigurður á Hrosshóli fór vasklega um svæðið í gær á gröfu sinni og nú eru allir vegir færir, í bókstaflegri merkingu, inni á svæðinu! Það eru áreiðanlega margir sem hafa hugsað sér gott til glóðarinnar og ætla upp eftir á Sumardaginn fyrsta og nú geta sem sé allir keyrt upp að sínum bústöðum, hvar sem þeir eru á svæðinu. Veðrið á auðvitað að verða nokkuð rysjótt en við vonum að snjókoman verði nú ekki mjög slæm.
Matarbúrið er lokaðApr 19 '15
Matarbúrið að Hálsi í Kjós mun ekki opna dyr sínar aftur, nokkuð sem okkur Kjósverjum finnst auðvitað afleitt! Þau eru að opna nýja verslun í Grandanum í Reykjavík, í einni af gömlu verbúðunum, og ætla alveg að hafa söluna þar sýnist mér af vefsíðunni þeirra.
Bóndinn að Sogni hefur líka verið að rækta Galloway naut og það er spurning hvort það verður hægt í sumar að kaupa beint af honum. Mun láta vita þegar eitthvað liggur fyrir í þeim efnum.