Fréttir

Staða hitaveitulagnar
May 05 '16

Kæru félagar,

Eins og kom fram á aðalfundinum nú fyrir skemmstu þá lítur ekkert sérstaklega vel út með hitaveitu í Norðurnesinu.

Það eru ekki nema 15 eigendur af 47 búnir að segjast ætla að taka hitaveitu. Þetta hlutfall er langt fyrir neðan það lágmark sem Kjósarveitur hafa gefið út til að stofnlögn verði lögð. Ef það verður ekki lögð stofnlögn þá mun hitaveita aldrei verða lögð í Norðurnesið og við verðum líklega eina sumarhúsahverfið í Kjósinni án hitaveitu.

Það hafa 16 eigendur sagt nei og þar af nokkrir sem hafa sagt 'nei, en seinna'. Svo eru 16 að auki sem hafa ekki svarað.

Ég vil hvetja þá sem hafa ekki svarað bréfinu frá Kjósarveitum að senda þeim svar þrátt fyrir að fresturinn hafi runnið út. Þau vilja endilega fá að heyra í ykkur. Það er líka hægt að senda tölvupóst á Sigríði Klöru á sigridur@kjos.is. Hvort sem svarið er já eða nei þá vil ég endilega biðja ykkur um að senda svar, og þetta á líka við um þau ykkar sem eru bara með lóðir.

Fyrir þá sem hafa kosið nei en ætla sér að taka þetta inn seinna þá get ég sagt ykkur að það verður að öllum líkindum ekki hægt. Ef það eykst ekki verulega mikið jákvæð svörun þá verður einfaldlega ekki lögð stofnlögn upp í Norðurnesið og það verður ekki hægt að fá hitaveitu seinna.

Hérna eru nokkur atriði sem gætu hafa verið misskilin eða fólk veit ekki af:

  • Hitaveita verður ekki lögð til okkar fyrr en eftir 2 ár.
  • Það þarf ekki að borga stofngjald fyrr en eftir 2 ár þegar þetta er lagt.
  • Fólk þarf ekki að taka hitaveituna inn, það er hægt að borga stofngjaldið en tengja svo húsið hvenær sem er seinna.
  • Það þarf ekki að borga mánaðargjald fyrr en fólk hefur látið tengja.
  • Arion banki mun bjóða upp á einföld og þægileg lán fyrir þessu.
  • Kaldavatnsveitu-vandræðin hjá okkur verða leyst áður en hitaveitan kemur.

Mér finnst mjög athyglisvert að hugsa til þess að Norðurnesið gæti verið í þeirri sérstöðu í Kjósinni að verða eina svæðið án hitaveitu. Ég vona svo sannarlega að fólk átti sig á þessu og hvað þetta þýðir fyrir framtíð okkar svæðis. Þetta mun t.d hafa veruleg áhrif á endursölumöguleika.

Hérna er smá samantekt á svarmöguleikunum:

Ef þú svaraðir : Frábært, en því miður þá lítur þetta ekki vel út. Það er samt ekkert meira sem þú getur gert.

Ef þú svaraðir Nei, en kannski seinna: Því miður, þetta er bara það sama og nei.
Ef þú hefur einhver tök á að breyta svari þínu í þá myndi ég íhuga það nema ef þú getir séð fyrir þér að fá aldrei hitaveitu.

Ef þú svaraðir Nei: Ertu viss um að þú eða börnin þín viljið aldrei fá hitaveitu í bústaðinn? Er ekki möguleiki að bústaðurinn yrði seldur í framtíðinni? Það verður erfitt að selja bústað án hitaveitumöguleika í Kjósinni þar sem allir aðrir eru með aðgang að hitaveitu. 

Ef þú hefur ekki svarað og ert óviss: Svarið þitt er Nei enn sem komið er. Ef þú ert ennþá að hugsa um þetta þá skaltu tala við Siggu Klöru. Ef þú sérð fyrir þér að vilja fá hitaveitu í framtíðinni þá myndi ég vilja hvetja þig til að taka þátt því annars missirðu (og við öll) af tækifærinu endanlega. 

Ef þú hefur ekki svarað en ert viss um að vilja þetta ekki: Endilega gerðu okkur hinum þann greiða að svara bréfinu eða senda Kjósarveitum póst. Það er betra fyrir okkur að vita hvar við stöndum. Mundu samt að ákvörðunin gæti verið endanleg fyrir bústaðinn eða lóðina þína.

Þið verðið að afsaka þetta röfl í mér en þetta er bara nokkuð krítískur tími fyrir litla samfélagið okkar. Ég efast ekki um það að eftir tuttugu ár þá finnist fólki í Kjósinni fyndið að hugsa til þess tíma þegar það var engin hitaveita, alveg eins og okkur finnst sumum fyndið að hugsa til þess tíma þegar það var ekkert rafmagn.

Til upprifjunar þá er hérna fundargerðin frá félagsfundinum okkar þar sem rætt var um hitaveitu.

 - Nonni

Fundargerð frá aðalfundi 2016
May 03 '16

Fundargerð frá aðalfundi 27. apríl 2016 er komin á vefinn. Hún er aðgengileg hérna.

Önnur skjöl sem farið var í gegnum á fundinum eru aðgengileg í nýrri síðu undir Félagið -> Skjöl.

Á næstu vikum verða svo sendar út fréttir vegna hinna ýmsu stóru mála sem rætt var um á aðalfundinum.

Það var frábært að sjá hversu góð mæting var á aðalfundinn. Stjórnin vill svo þakka fráfarandi stjórnar- og nefndarfólki og bjóða nýtt fólk velkomið í hinar ýmsu nefndir.

 - Stjórnin

Fréttir af aðalfundi 2016
May 01 '16

Aðalfundur var haldinn fyrir skemmstu, miðvikudaginn 27. Apríl. Þátttaka var mjög góð; 38 mættu frá 36 lóðum og líklega var sett met í fjölda lóða á aðalfundi.

Helstu mál:

  • Mannabreytingar í stjórn. Nýr gjaldkeri og meðstjórnandi.
  • Ný lög samþykkt.
  • Vatnsveituframkvæmd fyrir 32.000 kr á lóð samþykkt. Gjalddagi er 1. júní.
  • Óbreytt félagsgjald, 15.000 kr. Gjalddagi er 1. maí.
  • Fáir ætla að taka hitaveitu og það lítur því ekki vel út með lagningu stofnlagnar.
  • Í sumar verða lögð skilti til leiðbeiningar um svæðið.
  • Félagið verður 40 ára 3. júní.
  • Halda þarf áfram með vegagerð. Félagsgjöld nægja fyrir því.
  • Samþykkt var að halda lúpínu og kerfli í skefjum.

Uppfærð lög og nefndir eru undir Félagið í valstikunni á vefsíðunni. Full fundargerð verður svo birt innan tíðar.

 - Stjórnin

Rafmagnsviðgerðir
Apr 29 '16

Frá rarik:

Raforkunotendur í Hvalfjarðarsveit og Kjós.
Rafmagnslaust verður tvisvar í næstu virku:
Fyrra straumleysið er aðfararnótt þriðjudagsins 02. maí frá kl. 00:00 til kl. 03:00.
Seinna straumleysið er aðfararnótt föstudagsins 06. maí frá kl. 00:00 til kl. 02:00 vegna frágangs verka og prófana.

Rarik biðst velvirðingar á óþægindum sem af þessu stafa. Bilanasími 5289390.

Bilanavakt Vesturlandi

Sími: 528 9390

bilanavakt.vesturlandi@rarik.is

Minnum á aðalfund
Apr 26 '16

Aðalfundur sumarbústaðafélagsins verður haldinn í kvöld, miðvikudaginn 27. apríl kl 20.00 í Gerðubergi.

Vonumst til að sjá sem flesta.

 - Stjórnin

Mál til kynningar fyrir aðalfund
Apr 22 '16

Kæru félagar,

Stjórnin mun leggja eftirfarandi mál fyrir aðalfund sem haldinn verður nk miðvikudag, 27. apríl í Gerðubergi kl 20.00

Framkvæmdir á vatnsveitu

Vatsnveitunefndin er búin að vera að velta fyrir sér ýmsum útfærsluleiðum til að bæta vatnakostinn í Norðurnesinu. Sú tillaga sem verður lögð fyrir fundinn mun líklega kosta um eða yfir 30.000 kr á lóð. Það verður mögulega greitt eitt fast gjald og svo eitthvað extra til vara sem rukkað verður ef þörf krefst.

Á fundinum verður lokatala komin fram og lögð til kosningar.

Vatnsveita er mikið hagsmunamál fyrir okkur öll og við efumst ekki um að það verði líflegar umræður um þetta. Við viljum hvetja sem flesta til að mæta til að hlusta á vatnsveitunefndina og taka þátt í ákvarðanatökunni.

Breytingar á lögum

Sjá fyrri frétt hér

Félagsgjöld

Stjórnin hyggst leggja til að félagsgjöld verði óbreytt frá því í fyrra, 15.000 kr á lóð. Það er jafnframt möguleiki að á næsta ári verði óskað eftir hækkun.

Það gekk örlítið brösulega að innheimta sum félags og framkvæmdargjöld á sl. rekstarári. Enn eru einhverjir sem hafa ekki greitt. Einhverjir hafa jafnvel ekki greitt félagsgjöld í fleiri ár.

Þetta tekur allt saman mikinn tíma hjá stjórnarmönnum og við erum áhugasöm fyrir því að setja rukkanir í fastara ferli með innheimtu þegar þörf er á. Gjalddagar og innheimtuferli verða rædd á fundinum.

Breytingar á stjórn

Sigurður (nr 13) og Rikki (nr 55) ætla ekki að gefa kost á sér í stjórn aftur. Við þökkum þeim góð störf í gegnum árin.

Það þarf því tvo nýja stjórnarmeðlimi. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við stjórnina fyrir fundinn.

Skilti og merkingar

Stjórnin leggur til að nöfnunum á svæðunum þremur verði breytt úr 'neðra, efra, efsta/nýja' í einfaldlega svæði 1, 2 og 3. Bústaður nr. 59 verður svo hluti af svæði 3 en var hluti af svæði 2 áður.

Rikki (nr 55) er búinn að bjóðast til að taka að sér að gera skilti og koma þeim upp. Það væri gott að fá einhvern með honum í þá vinnu. Þessi skilti munu vísa fólki á rétt svæði með húsanúmerum og einnig verða skilti á hverju hliði til að gefa til kynna að um einkaveg sé að ræða.

Vegavinna

Stjórnin er mjög ánægð með vinnuna sem var farið í síðasta haust og Einar Arason (nr 62) hlýtur miklar þakkir fyrir það frábæra starf sem hann hefur unnið.

Það þarf að halda áfram með vinnuna nú í sumar og klára nokkur útistandandi atriði. Þar með talið er að bæta við efni á nokkrum stöðum fyrir utan hlið, setja niður eitt rör á svæði 2 (efra svæði) og bæta skurði meðfram vegi.

Það verður ekki beðið um auka fjárútlát vegna vegagerðar en líklegt þykir að stór hluti félagsgjalda muni renna til þessa liðar.

Einar vill endilega fá álit fólks á framkvæmdum og umræðu um hvað ætti að gera og hvar. Endilega komið með tillögur á fundinn og ekki væri verra að hafa uppdrætti og/eða myndir máli til stuðnings.

Hitaveita

Það verður rætt á fundinum um svarhlutfall í Norðurnesi en stjórnin hefur fengið bráðabirgðatölur frá Kjósarveitum. Í stuttu máli sagt þá lítur það ekkert sérlega vel út með hitaveitu hjá okkur en það hafa alltof fáir sent inn svar hingað til.

Stjórnin vill, eftir samráð við Kjósarveitur, hvetja alla að svara bréfinu frá Kjósarveitum þrátt fyrir að fresturinn sé runninn út. Það er betra að svara 'nei' eða 'kannski seinna' frekar en að senda ekkert svar. Það er svo líklegt að fulltrúi Kjósarveitna muni byrja að hringja í fólk sem ekki hefur sent svarbréf til að fá svör.

Á fundinum mun stjórnin ræða aðeins um núverandi stöðu á verkefninu og svara spurningum.

Aðgengi að vetri

Það verður rætt um hvað sé hægt að gera til að bæta aðgengi að svæðinu yfir vetrarmánuðina, snjómokstur, gróður meðfram vegum og slíkt.

Óæskilegur gróður

Stjórnin hyggst leggja til atkvæðagreiðslu hvort vilji sé innan félagsins að halda kerfli og lúpínu í skefjum á svæðinu. Ef svo er þá verður óskað eftir áhugasömum til að fylgja því verkefni eftir.

Rollur inná svæðum

Í fyrra ollu rollur á svæðunum einhverju raski og virðast geta komist óhindrað yfir kindahliðin okkar. Stjórnin hefur rætt um hliðgrindur inná svæðin en það verður ekki kíkt á það á þessu ári. Sigurjón (nr. 15) ætlar að taka að sér að kíkja á núverandi kindahlið og athuga hvort eitthvað sé hægt að gera í sumar án mikils tilkostnaðar. Gott væri að fá einhvern með honum í þetta.

Vöktun

Síðastliðið haust var sett upp eftirlitsmyndavél við veginn inn Norðurnesið. Formaður segir aðeins frá þessu verkefni og rætt verður um hvort það séu einhver næstu skref hérna eða hvort félagar séu sáttir við núverandi fyrirkomulag.

Girðing og minni framkvæmdir

Það þarf að ganga meðfram girðingu og laga þar sem þarf eftir veturinn. Leitað verður eftir áhugasömum til að taka það að sér.

Einnig verður rætt um hvort það sé einhverra annarra minni framkvæmda þörf sem hægt er að vinna sem samvinnuverkefni meðal félagsmanna eins og að leggja göngustíga, litlar brýr o.s.frv.

Brennan

Brennan gekk mjög vel í fyrra og stjórnin þakkar Soffíu (nr. 61) og fjölskyldu fyrir að sjá vel um það. Við vonum að þau séu reiðubúin að endurtaka leikinn á þessu ári. Ef einhverjir hafa hugmyndir með brennuna eða tengda atburði þá getum við rætt það.

 

Þetta er ekki tæmandi listi yfir það sem verður rætt á fundinum en gefur ágætis yfirsýn yfir dagskránna. Við viljum hvetja alla sem hafa fleiri mál að ræða undir liðnum 'önnur mál' að undirbúa mál sitt og ekki væri verra að senda stjórninni upplýsingar um það fyrir fundinn.

Eins og venjulega höfum við margt að ræða og við þurfum að nýta tímann vel.

Við hlökkum til að sjá sem flesta á miðvikudaginn.

 - Stjórnin

Breytingar á lögum
Apr 14 '16

Kæru meðlimir,

Á aðalfundinum sem verður miðvikudaginn 27. apríl nk verða lögð fram ný lög sumarhúsafélagsins til samþykktar.

Ástæðan fyrir þessu er að núverandi lög eru orðin gömul og samræmast ekki að fyllu núverandi landslögum vegna sumarhúsabyggða.

Í stað þess að lappa upp á gömlu lögin var ákveðið að taka inn staðlaðar samþykktir frá Landssambandi Sumarhúsaeiganda. Hafa lögin svo verið staðfærð lítillega að okkar félagi.

Hérna eru nýju lögin sem verða tekin til samþykktar

Hérna eru gömlu lögin sem verða gerð ógild

Nýju lögin hafa verið yfirfarin af lögfræðingi frá Landssambandi Sumarhúsaeiganda. Það væri gott fyrir fólk að lesa þau yfir og mynda sér skoðanir fyrir fundinn.

Aðalfundur á næsta leyti
Apr 10 '16

Kæru meðlimir,

Stefnt er að halda aðalfund félagsins í lok mánaðarins, miðvikudaginn 27. apríl. Það verður sent út fundarboð bréfleiðis í vikunni og fundurinn verður svo einnig kynntur á vefnum.

Það eru allmörg málefni sem þarf að afgreiða. Þau mál sem stjórnin er komin með á sitt borð eru meðal annars:

  • Það verður lögð fram tillaga eða tillögur vegna fyrirhugaðra framkvæmda á kaldavatnsveitu sem gætu orðið kostnaðarsamar.
  • Það verða lögð fram til samþykktar ný lög félagsins sem samræmast drögum frá landssambandi sumarhúsaeiganda og standast landslög.
  • Kynntar verða vegaframkvæmdir ársins og meðlimum gefst tækifæri á að ræða um forgangsröðun og útfærslu. Miðað verður við að þessar framkvæmdir krefjist ekki aukafjármagns eins og í fyrra.
  • Rætt verður um aðgengi um vetur, gróður (þmt lúpínu), hitaveitu, ofl.

Stjórnin vill hvetja meðlimi til að koma til okkar sem fyrst þeim málefnum sem þau vilja ræða fyrir fundinn og leggja fram tillögur. Hægt er að gera það með því að senda tölvupóst á stjorn@nordurnes.is.

Kveðja,

Stjórnin

Byrjað að veiða í Meðalfellsvatni
Apr 03 '16

Frétt af visir.is

Meðalfellsvatn er kannski ekki þekkt fyrir neina mokveiði en samt er þetta eitt skemmtilegasta vorvatnið í nágrenni höfuðborgarinnar.

Það veiðist ágætlega í vatninu stærstan hluta af tímabilinu og því er að þakka dýpt vatnsins en það er 18 metra djúpt.  Þetta gerir það að verkum að vatnið hlýnar ekki jafn mikið og grunnri vötnin en þegar vötnin verða mjög hlý getur takan oft dottið niður.  Síðan er það þannig á vorin að fiskurinn í vatninu tekur oft vel þar sem hann hefur ekki verið miklu æti yfir veturinn og stekkur oft á straumflugurnar af mikilli græðgi.

[...]

http://www.visir.is/medalfellsvatn-for-vel-af-stad-um-helgina/article/2016160409701

Færðin er góð - Búið að skafa
Mar 22 '16

Í tilefni páskana þá fór Sigurður á Hrosshóli um svæðið okkar á mokaði burtu sköflum hér og þar. Það ætti að vera nokkuð vel fært inn á öll svæðin.

Hafið í huga að það þarf að fara varlega á fólksbílum því það er drullusvað hér og þar.

Takk Siggi og Einar!