Sumarbústaðafélagið Norðurnes

Hagnýtar Upplýsingar

Hérna er ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir nýja íbúa í Norðurnesi.
Ef þú lumar á viskukorni sendu okkur línu á vefstjori@nordurnes.is.

Hvernig kemst ég þangað?

Norðurnesið er í Kjósinni. Það tekur u.þ.b. 35-45 mínútur að aka frá höfuðborgarsvæðinu til Norðurness. Það eru tvær leiðir sem báðar liggja í gegnum Mosfellsbæ. Önnur fer framhjá Kjalarnesi og inn Hvalfjörðin og hin fer í gegnum Mosfellsdal og Þingvallarveginn. Þessi síðari er svolítið styttri en þú ert lengur á malarvegi þannig. Ef það er mikil rigning eða leiðinleg færð þá gætirðu viljað fara Hvalfjarðarleiðina.

Hérna sérðu leiðina um þingvallarveginn og hérna er leiðin um Hvalfjörðinn.

Sjáðu svo myndina hér til hliðar til að sjá hvaða hlið þú átt að velja fyrir svæði 1 (áður kallað neðra svæðið) (1-23), svæði 2 (áður kallað efra svæðið) (24-60) og svæði 3 (áður kallað nýja svæðið) (61-100)

Árlega brennan

Brenna er haldin árlega af Sumarbústaðafélaginu Norðurnesi á laugardagskvöldi um verzlunarmannahelgina og er brennan staðsett vinstra megin við veginn skömmu eftir að komið er inn á svæðið frá þjóðveginum, á velli við ána. Eru félagsmenn hvattir til þess að leggja sitt af mörkum við gerð brennunnar og koma þangað með greinar, gras, spýtur og annað brennanlegt efni sem til fellur yfir sumarið. Við brennuna eru grillaðar pylsur og safi er í boði fyrir börnin. Ýmislegt er gert til skemmtunar og hefur alltaf einhver mætt með annað hvort harmonikku eða gítar og svo er sungið af miklum móð. Gott er að mæta með sönghefti. Krakkarnir fara gjarnan í leiki og reipitog hafa verið vinsæl gegnum tíðina. Er það brennunefnd sem ber hitann og þungann af brennunni.

Ef veður er slæmt á laugardagskvöldið hefur brennu stundum verið frestað þar til helgina á eftir.

Svæðin þrjú

Norðurnes skiptist í þrjú svæði: Svæði 1 (lóðir 1-23), svæði 2 (lóðir 24-60) og svæði 3 (lóðir 61-100). Öll svæðin eru afmörkuð með hliði. Stuttu eftir að komið er inn á sumarbústaðasvæðið frá þjóðveginum er hægt að beygja til vinstri og er þar farið inn á neðra svæði. Ef haldið er áfram eftir aðalveginum er farið inn gil sem hækkar í endann. Þar efst uppi er hægt að beygja aftur til vinstri og er þar farið inn á efra svæði. Þegar farið er framhjá því endar vegurinn stuttu seinna og er þar hægt að beygja líka til vinstri. Þar er hægt að fara inn á nýja svæðið. Öfugt við hin svæðin kvíslast vegurinn þar í þrjár áttir. Enn sem komið er eru bara hús við veginn vinstra megin og í miðjunni.

Hérna er kort sem sýnir svæðin þrjú.

Hvenær eiga hliðin að vera læst?

Hlið liggja þar sem keyrt er inn á svæðin þrjú og er hægt að læsa þeim öllum.Yfir sumarið eiga þessi hlið að vera læst á virkum dögum en mega vera ólæst um helgar sökum tíðrar umferðar. Frá 1.september til 1.júní eiga hliðin hins vegar alltaf að vera læst. Allir íbúar eru með lykil sem gengur að lásunum á öllum þremur hliðunum.

Vatnsforðinn

Norðurnes hefur aðgang að einu vatnsbóli sem er staðsett í fjallinu Múla, sem er hægra megin við svæðið. Þar er einn vatnstankur þar sem vatn safnast fyrir og úr honum kemur allt vatn inn á svæðið. Tankurinn er orðinn of lítill nú þegar og annar illa vatnsþörf bústaðanna yfir sumarið. Það er því bráðnauðsynlegt fyrir okkur að fara mjög sparlega með vatnið yfir sumarið þegar margir eru á svæðinu og sérstaklega ef lítið hefur rignt. Við þessar aðstæður má fólk alls ekki vökva með slöngu, skola rykið af bílunum eða fara á einhvern hátt ósparlega með vatn. Annars fer það svo að ekkert vatn kemur úr krananum til neyslu eða í klósettkassana. Ekki er hægt að leggja á það nógu mikla áherslu að við verðum að fara sparlega með vatnið á sumrin. Eitthvað hefur verið rætt um að kaupa annan tank en það er ekki á dagskrá að svo stöddu.

Snjór og aðkoma að vetri

Eftir að vetur hefur gengið í garð verður að skrúfa fyrir vatnið svo það var fari ekki inn í húsið. Leiðslur geta sprungið í frosti og engan langar til þess að það gerist innandyra með tilheyrandi vatnsskemmdum í kjölfarið. Ef að mjög kalt er úti er sömuleiðis óvíst hvort hægt sé að nálgast vatn í bústöðum, ef frost er í leiðslum.

Ef það snjóar einhvers staðar í Kjósinni má ganga út frá því sem vísu að það er snjór í gilinu (leiðin að efra og nýja svæði). Þar er líka oft gríðarlega mikil hálka á veginum og er hann þá ófær fyrir bíla sem ekki eru á nagladekkjum. Ef veturinn er snjóþungur má gera ráð fyrir að gilið sé oft ófært og hefur fólk oft þurft að skilja bíla sína eftir fyrir neðan gilið. Sömuleiðis fennir gjarnan yfir veginn inni á svæðunum á ákveðnum stöðum þar sem tré eru við hann og geta myndast stórir skaflar sem jafnvel eru ekki færir stórum bílum.

Fyrir smærri bíla er næstum hægt að ganga að því vísu að það þurfi mestmegnis að labba frá aðalvegi og uppeftir frá nóvember og fram í apríl.

Sigurður á Hrosshóli hefur boðið fram aðstoð við snjómokstur. Hægt er að ná í hann í símum 566 6537 eða 893 0258.
Hann tekur mjög sanngjarnt tímagjald fyrir að fara uppeftir á traktornum og grafa fyrir fólk. Bærinn hans er steinsnar frá Norðurnesi.

Félagið stendur fyrir reglulegum snjómokstri á veturnar og tilkynningar þess eðlis eru sendar út í gegnum þessa síðu.

Nettengingar

Ef fólk hefur áhuga á því að fá nettengingu í bústaðinn þá býður 365 (áður emax) upp á þá þjónustu. Uppsetningin kostar 20.000 og ef þeir þurfa ekki að mæta á staðinn sjálfir til þess að sjá um hana kostar hún 10.000. Þeir selja beini (router) á 12.000 en hægt er að nota hvaða beini sem er, beinirinn sem Emax býður upp á er svolítið dýr. Mánaðargjaldið hjá Emax er 2.200 og er þá 2 GB af erlendu niðurhali, allt íslenskt niðurhal og allt upphal (íslenskt og erlent) er ókeypis.

Hraði tengingarinnar hefur verið auglýstur sem 20 megabit en í raun nær hann ekki 10 megabitum og gæði tengingarinnar eru ekki góð (mikið pakkatap). Þessi tenging er allt í lagi fyrir venjulegt vefráp en ég myndi ekki mæla með þessu fyrir sjónvarp (sendirinn er í Vindáshlíð). Hafði líka í huga að maður er ansi fljótur að klára 2GB erlent niðurhal með venjulegu vefrápi yfir sumarmánuðina.

Heimasíða Emax er: www.emax.is

Síminn er svo búinn að setja upp 3G sendi í Vindásshlíð og það er allt að 14Mbit hraði þar og mjög fínt samband með 3G pung og 3G símum. Það er ekkert 3G samband hjá Vodafone í Norðurnesinu enn sem komið er.

Félagsgjald

Félagsgjald í Sumarbústaðafélagið Norðurnes er 15.000 kr á ári. Heimild er fyrir því að rukka um allt að 3.000 kr. í viðbót vegna sérstakra framkvæmda, t.d vegna vegar.

Hitaveita

Enn sem komið er er ekkert heitt vatn á svæðinu frekar en í Kjósinni. Búið er að bora tilraunaholu í landi Möðruvalla en reyndist hún ekki eins vel og vonir stóðu til. Hreppsstjórn hefur ekki enn ákveðið hvort bora skul aðra holu eða þessi dýpkuð. Á aðalfundi sem haldinn var vorið 2013 var málið kynnt félaginu og svo aftur voruð 2015.

Ætlunin er að heitt vatn verði leitt um Kjósina yfir næstu þrjú ár. Ef leiða á heita vatnið í Norðurnesi mun 70% bústaða þurfa að samþykkja það. Í dag er gert ráð fyrir að byrjunarkostnaður vegna lagnarinnar verði 900.000 kr og mánaðargjald eftir það verði 12.000 kr. Ekkert er þó enn fast í hendi varðandi vatnið. Við bendum á vef Kjósarhrepps vegna málsins: www.kjos.is

Gönguleiðir

Forn þjóðleið, Svínaskarðsvegur, liggur inn Svínadalinn, yfir Svínaskarð sem skilur að Skálafellið og Móskarðshnúka og niður í Mosfellsdal. Er leiðin vinsæl af göngufólki, hestamönnum og fjórhjólafólki. Leiðin er sömuleiðis stundum fær vel útbúnum stórum jeppum. Hægt er að keyra eftir veginum eitthvað inn dalinn á jeppum áður en vegurinn verður of torfær.

Fjórhjól og mótorhjól

Umferð fjórhjóla og mótorhjóla innan svæðanna er óheimil samkvæmt samþykkt á aðalfundi félagsins, nema auðvitað til þess að komast til og frá bústað. Var þetta samþykkt sökum mikils hávaða sem þessi faratæki orsaka.

Gæludýr

Hundar og kettir mega ekki ganga laus um svæðið.

Silungsveiði

Áin sem rennur um svæðið, Svínadalsá, er ekki gjöful silungsá. Sá sem þetta skrifar hefur verið gestur á svæðinu frá barnsaldri og þrátt fyrir ítrekar tilraunir til þess að fanga fisk hafa þær tilraunir engan árangur borið. Hins vegar er því ekki að neita að silungur HEFUR fengist úr ánni. Gestur sem kom eitt sinn í heimsókn hafði tekið með sér stöng og brá sér í stuttan veiðitúr sem gaf af sér fallegan fisk og vakti fengurinn mikla furðu heimafólks sem áður hafði látið í ljós miklar efasemdir um tilgang veiðiferðarinnar við gestinn.

Veiðikortið

Til að veiða í Meðalfellsvatni þarftu veiðikortið. Veiðikortið er ekki lengur selt í Kaffi Kjós, en þú getur orðið þér út um það hinum megin við vatnið á bænum Grjóteyri. Frekari upplýsingar um veiðikortið fást hér.

Upplýsingar fyrir Brennunefnd

Hérna er skjal með upplýsingum fyrir brennunefnd.