Fréttir & Tilkynningar

Engin hjálp með veginn
12. jún. 2015 12:22


Stjórnin hafði sent inn umsókn til vegagerðarinnar um að vegurinn okkar yrði gerður að héraðsvegi. Rökin sem við höfðum voru annars vegar að vegurinn sinnir sumarbústaðabyggð og hins vegar að hann er notaður af fólki sem á leið inn dalinn.

Ég hringdi í þá í morgun til að athuga stöðuna á umsókninni og við munum fá neitun við því. Svarið kemur ekki mikið á óvart.

Ég heyrði einnig í hreppsnefndinni og það var borið upp á fundi þeirra sl miðvikudag hvort það væri ekki réttast að veita okkur einhverja aðstoð við veginn þar sem a) hreppurinn á mikið af lóðum á svæðinu og b) þar sem vegurinn sinnir fleirum en bara sumarbústaðabyggðinni (tenging við vegslóða inn dalinn). Því miður fengum við neitun þar líka.

Hreppurinn útilokaði samt ekki að hann myndi koma eitthvað að veginum í framtíðinni þegar/ef þau fara að selja lóðir á svæðinu.

Næstu skref eru að athuga hvort við gætum sent inn erindi til vegagerðarinnar um styrkveg en það væri ekki á þessu ári þar sem umsóknarfresturinn er runninn út. Þessi umsókn yrði eiginlega að koma frá hreppnum til að hún væri tekin alvarlega og ég mun sækja það til hreppsnefndar hvort það væri möguleiki að hreppurinn myndi senda inn umsókn næsta vor. Rökin fyrir þessu væru þá ekki sumarbústaðabyggðin heldur tengingin við svínadalsleið.

Sumsagt, engar góðar fréttir að svo stöddu og við sitjum ein uppi með þennan blessaða veg. Okkur finnst öllum alveg óhemju ósanngjarnt að þurfa að halda uppi þessum veg fyrir almenna umferð og höldum áfram að reyna að sækja einhverja aðstoð næstu ár.

Vegna þessa er líklegt að félagsmenn muni þurfa að greiða aukagjald til vegavinnu eins og var komið inná á síðasta aðalfundi. Hversu mikið það verður á eftir að áætla en vonandi getum við sett fram einhverskonar kostnaðaráætlun fljótlega.

- Stjórnin

  
Til baka