Fréttir & Tilkynningar

Staða hitaveitulagnar
05. maí 2016 18:16


Kæru félagar,

Eins og kom fram á aðalfundinum nú fyrir skemmstu þá lítur ekkert sérstaklega vel út með hitaveitu í Norðurnesinu.

Það eru ekki nema 15 eigendur af 47 búnir að segjast ætla að taka hitaveitu. Þetta hlutfall er langt fyrir neðan það lágmark sem Kjósarveitur hafa gefið út til að stofnlögn verði lögð. Ef það verður ekki lögð stofnlögn þá mun hitaveita aldrei verða lögð í Norðurnesið og við verðum líklega eina sumarhúsahverfið í Kjósinni án hitaveitu.

Það hafa 16 eigendur sagt nei og þar af nokkrir sem hafa sagt 'nei, en seinna'. Svo eru 16 að auki sem hafa ekki svarað.

Ég vil hvetja þá sem hafa ekki svarað bréfinu frá Kjósarveitum að senda þeim svar þrátt fyrir að fresturinn hafi runnið út. Þau vilja endilega fá að heyra í ykkur. Það er líka hægt að senda tölvupóst á Sigríði Klöru á sigridur@kjos.is. Hvort sem svarið er já eða nei þá vil ég endilega biðja ykkur um að senda svar, og þetta á líka við um þau ykkar sem eru bara með lóðir.

Fyrir þá sem hafa kosið nei en ætla sér að taka þetta inn seinna þá get ég sagt ykkur að það verður að öllum líkindum ekki hægt. Ef það eykst ekki verulega mikið jákvæð svörun þá verður einfaldlega ekki lögð stofnlögn upp í Norðurnesið og það verður ekki hægt að fá hitaveitu seinna.

Hérna eru nokkur atriði sem gætu hafa verið misskilin eða fólk veit ekki af:

  • Hitaveita verður ekki lögð til okkar fyrr en eftir 2 ár.
  • Það þarf ekki að borga stofngjald fyrr en eftir 2 ár þegar þetta er lagt.
  • Fólk þarf ekki að taka hitaveituna inn, það er hægt að borga stofngjaldið en tengja svo húsið hvenær sem er seinna.
  • Það þarf ekki að borga mánaðargjald fyrr en fólk hefur látið tengja.
  • Arion banki mun bjóða upp á einföld og þægileg lán fyrir þessu.
  • Kaldavatnsveitu-vandræðin hjá okkur verða leyst áður en hitaveitan kemur.

Mér finnst mjög athyglisvert að hugsa til þess að Norðurnesið gæti verið í þeirri sérstöðu í Kjósinni að verða eina svæðið án hitaveitu. Ég vona svo sannarlega að fólk átti sig á þessu og hvað þetta þýðir fyrir framtíð okkar svæðis. Þetta mun t.d hafa veruleg áhrif á endursölumöguleika.

Hérna er smá samantekt á svarmöguleikunum:

Ef þú svaraðir : Frábært, en því miður þá lítur þetta ekki vel út. Það er samt ekkert meira sem þú getur gert.

Ef þú svaraðir Nei, en kannski seinna: Því miður, þetta er bara það sama og nei.
Ef þú hefur einhver tök á að breyta svari þínu í þá myndi ég íhuga það nema ef þú getir séð fyrir þér að fá aldrei hitaveitu.

Ef þú svaraðir Nei: Ertu viss um að þú eða börnin þín viljið aldrei fá hitaveitu í bústaðinn? Er ekki möguleiki að bústaðurinn yrði seldur í framtíðinni? Það verður erfitt að selja bústað án hitaveitumöguleika í Kjósinni þar sem allir aðrir eru með aðgang að hitaveitu. 

Ef þú hefur ekki svarað og ert óviss: Svarið þitt er Nei enn sem komið er. Ef þú ert ennþá að hugsa um þetta þá skaltu tala við Siggu Klöru. Ef þú sérð fyrir þér að vilja fá hitaveitu í framtíðinni þá myndi ég vilja hvetja þig til að taka þátt því annars missirðu (og við öll) af tækifærinu endanlega. 

Ef þú hefur ekki svarað en ert viss um að vilja þetta ekki: Endilega gerðu okkur hinum þann greiða að svara bréfinu eða senda Kjósarveitum póst. Það er betra fyrir okkur að vita hvar við stöndum. Mundu samt að ákvörðunin gæti verið endanleg fyrir bústaðinn eða lóðina þína.

Þið verðið að afsaka þetta röfl í mér en þetta er bara nokkuð krítískur tími fyrir litla samfélagið okkar. Ég efast ekki um það að eftir tuttugu ár þá finnist fólki í Kjósinni fyndið að hugsa til þess tíma þegar það var engin hitaveita, alveg eins og okkur finnst sumum fyndið að hugsa til þess tíma þegar það var ekkert rafmagn.

Til upprifjunar þá er hérna fundargerðin frá félagsfundinum okkar þar sem rætt var um hitaveitu.

 - Nonni

  
Til baka